8 daga hestaferð

Riðið um fjölbreytt landslag Fjallabaks með heimafólki. Þrautþjálfaðir hestarnir fara um stórbrotna staði eins og Landmannalaugar, Eldgjá, Mælifellssand svo fátt eitt sé nefnt.

Ferðaáætlun:

1. dagur:
Þegar búið er að fá sér staðgóðan morgunmat og pakka öllu í trússbílinn sem á að vera meðferðis næstu daga er haldið af stað inní hesthús.
Þegar hestar og knapar eru klárir er lagt af stað á mjúkum moldarslóðum meðfram kyrrlátri Rangá Ytri. Riðið er framhjá Hrólfstaðahelli og áð við gömlu grasi grónu torfkofana við Húsagarð. Þar er fengið sér nestið og haldið í framahaldi áfram í átt að Réttarnesi. Þaðan sem leið liggur að Leirubakka og að náttstaðnum Rjúpnavöllum. 5-6 klukkustundir á hestbaki.

2. dagur:
Lagt er af stað frá Rjúpnavöllum eftir morgunmat og þegar öllu er pakkað í bílinn. Haldið af stað og riðið yfir Hafið, en svo nefnist vikurbreiðan sem er á milli Heklu og Búrfells. Áð við Tröllkonuhlaup þar sem farið er yfir helstu staðarhætti. Því næst haldið áfram og stefnan tekin á Valahnjúka þar sem borðað er nestið. Eftir góða nestispásu er lagt af stað aftur og ríðum á frábærum götum uppí Landmannahellir þar sem gist er næstu þrjár nætur. 5-6 klukkustundir á hestbaki

3. dagur:
Stutt reiðleið þennan daginn en riðið er uppí Landmannalaugar í gegnum Dómadalinn. Riðið meðfram Frostastaðavatni og í gegnum Norðurnámuhraun. Hádegisverður framreiddur og boðið er uppá gönguferð eða ef vilji er fyrir hendi að skella sér beint í bað. 2-3 tímar á hestbaki. Keyrt aftur í Landmannahellir þar sem er gist.

4. dagur:
Keyrt til hestanna í Landmannalaugum og riðið af stað, yfir Jökulkvíslina og gegnum Kýlingaskarð þar sem undurfagrir Kýlingarnir taka á móti hópnum. Nestispása í gerðunum í Jökuldölunum. Riðið sem leið liggur í átt að Eldgjánni þar sem stórkostleg gossprungan blasir við. Það er svo haldið í Hólaskjól þar sem hvílst er fyrir lengsta dag ferðarinnar. 7 klukkustundir á hestbaki.

5. dagur:
Lagt af stað snemma morguns þar sem löng dagleið er fyrir höndum. Farið er um töfraheim Álftavatna. Ekki er verra það sem tekur við því það er Mælifellssandur sem er í senn ógnvænlegur í vondum veðrum en draumi líkast að ferðast um í góðu veðri. Orkan frá jöklinum og Mælifellinu sjálfu umlykur hvern þann sem ferðast um þessar slóðir. Endað í Hvanngili.
8 klukkustundir á hestbaki.

6. dagur:
Rólegur en jafnframt útsýnislega undur fallegur dagur. Riðið frá Hvanngili og tekin góð pása við Mosa þar sem Tindafjallajökullinn gnæfir yfir. Förum yfir brúnna á Markafljóti og stefnum á Einhyrning, þetta einstaka fjall þar sem skálinn Bólstaður kúrir undir. Njótum að slaka þar á eftir 2-3 klukkustunda reiðtúr.

7. dagur:
Riðið af stað meðfram Markarfljótinu í gegnum Tröllagjá. Skipt um hesta við Fell og eftir það tekur við Fljótshlíðin. Tekin pasa við Gluggafoss þar sem hægt er að skoða þann skemmtilega foss í návígi. Endum daginn í Smáratúni þar sem munaður sem ekki hefur verið í boði dagana á hálendinu, má þar nefna bar. 5-6 klukkustundir á hestbaki.

8. dagur:
Síðasti dagurinn runninn upp. Frá Smáratúni er riðið í gegnum Tumastaðaskóg og um Vatnsdalinn fagra. Nestispása við Rangá Eystri. Þaðan er farið um Rangárvellina, farið fram hjá Gunnarsholti og að Rangá Ytri. Þar er farið yfir þessa tæru á við Heiði. Endum á landi Hekluhesta þar sem lokaspretturinn er tekinn á mjúkum moldargötum. 6 klukkustundir á hestbaki.

Endilega hringið fyrir frekari upplýsingar í síma: 869 8953 eða sendið tölvupóst á hekluhesta@hekluhestar.is